15. apríl 2013

Kæra Alþýðusamband...



Í fréttum í dag sagði af því þegar verðlagseftirlitsmenn ASÍ gerðu tilraun til inngöngu í verslunina Kost en þurftu frá að hverfa þegar verslunareigandinn rændi af þeim möppum eða pennum. Þá gátu þeir, eðli málsins samkvæmt ekki haldið áfram.

Við heyrum líklega reglulega af því að hin eða þessi verslunin sé með afarkosti gagnvart verðlagskönnunum.

Á þessu öllu er ákaflega einföld lausn. Lausnin væri líka sanngjörn og öllum til gagns.

Hún er þessi:

ASÍ getur greitt framleiðslukostnaðinn við smáforrit fyrir helstu tegundir síma. Með þessu smáforriti má skanna strikamerki vöru og kalla fram upplýsingar um verð á nákvæmlega sömu vöru annarsstaðar. Eins væri eðlilegt að hægt væri að sjá þróun á verði vörunnar aftur í tímann, jafnvel í samanburði við helstu vísitölur og gengi krónunnar.

Mjög auðvelt væri að auka notagildi slíks forrits með því að hugsa um þarfir notandans. Forritið mætti nota sem reiknivél yfir það sem komið er í matarkörfuna. Maður gæti síðan séð hvað sama karfa hefði kostað í öðrum búðum. Þegar fram í sækti mætti sjá mun á vöruúrvali eftir verslunum. Gefa mætti þeim einkunn fyrir þjónustu og ýmsa þætti sem skipta máli. Það mætti jafnvel vera innbyggð skeiðklukka sem mælir hve lengi maður stendur í röðinni við kassann.

Ef forritið væri gert aðgengilegt og grunnkóðinn ókeypis gætu ýmis hliðarforrit skotið upp kollinum. Eitt gæti verið forrit sem heldur skrá yfir það sem til er í ísskápnum og gefur áminningu þegar eitthvað fer að klárast. Hægt væri að tengja alla síma fjölskyldunnar á einn reikning og skanna hluti áður en þeim er hent. Það að skrá hluti áður en þeim er hent gæti aukið umhverfisvitund og nýtni. Upp gætu poppað myndbönd um endurvinnslu eða endurnýtingu. Forrit gæti gefið hugmyndir um kvöldmatinn út frá því sem er til. Svona mætti lengi telja. Fylgjast mætti með bensínverði með áþekkum hætti.

Aðalatriðið er að það er hægur leikur að koma aðhaldinu og eftirlitinu með verðlagi úr höndum einstakra aðila og gert það að almennu hlutverki ábyrgra neytenda. Fjöldinn myndi tryggja að misnotkun eða svindl væri næstum útilokað. Neytendavitund almennings myndi aukast og eftirlit með breytingum á vöruverði yrði stöðugt. Loks væri þetta gríðarlega mikið aðhald gagnvart verslun í landinu (þetta þarf ekki að einskorðast við mat).

Hver og einn myndi nota slíkt forrit algjörlega á eigin forsendum. Einn myndi aðeins skanna dýra hluti. Annar tíunda hvern hlut. Einhverjir myndu nota alla möguleika forritsins (forritanna).

Sannast sagna er verðlagseftirlit á landinu ákaflega langt á eftir tímanum og meðvitund neytenda eftir því. Yfirsýnin er lítil sem engin og vöruverð virðist hoppa upp og niður án nokkurra eðlilegra skýringa.

Það er löngu tímabært að neytendur fái yfirhöndina.

Ég segi því: Kæra Alþýðusamband, hvernig væri það?

Engin ummæli: